30.12.23

ÁRAMÓTAANNÁLL GLAMÚRGELLUNNAR 2023

Árið 2023.

Árið hófst með nýrri vinnu hjá landskjörstjórn. Mjög gaman og spennandi að fá að hugsa um kosningar alla daga og reyna að setja upp ferla og fræðslu og velta fyrir sér hvernig allt getur orðið (enn) betra. Ég finn hvernig ég er búin að vaxa mjög sem lögfræðingur þarna og það er gaman. Ég bíð sennilegast spenntust allra eftir nýársávarpi forsetans og hvort hann ætli að fara aftur fram.


Í janúar fór ég í geggjaða Londonferð með bestu stelpunum og mönnunum þeirra. Við sáum Eygló á sviði sem var gaman, borðuðum ótrúlega góðan mat og drukkum vín. Stórkostleg ferð í besta félagsskapnum. Ég fann mér ný einkunnarorð úti sem ég er, án gríns, að lifa eftir – firm, free and liberal. Ég er búin að reyna og reyna að rifja upp hvað ég gerði á afmælinu mínu og ég man það ekki?


Í janúar keyptum við okkur bíl því ég var með svo mikinn samgöngukvíða eftir að það snjóaði hressilega og ég gat ekki hjólað. Það var algjört maus að halda á Baldri í strætó til að koma honum á leikskólann svo bíll var það. Allra best er auðvitað að hjóla.


Í febrúar var lífið afskaplega tíðindalítið.


Í mars fórum við í sumarbústað í fimbulkulda. Það var svo kalt að við gátum ekki verið úti og potturinn var frosinn. Minnir mig svolítið á þessi jól, þar sem við erum bara inni að reyna að horfa ekki á sjónvarpið (… ehh) og síðan fór ég í kosningaeftirlit til Svartfjallalands. Það var mjög merkileg reynsla, bæði að fá að sjá lítil þorp einhverstaðar uppi í fjöllum og kosningaframkvæmdina. Ég vona að ég fái tækifæri til að fara í meira kosningaeftirlit á næstu árum.


Í apríl gæsuðum við Áslaugu. Það var frábær dagur og afskaplega gaman að hitta okkar besta mann JPZ. Ég myndi segja að þetta ár hafi verið svolítið ár æskuvinkvenna minna úr Réttó. Við hittumst mun meira en fyrri ár og það var ótrúlega skemmtilegt og eitthvað sem ég hlakka til að gera enn meira af á næsta ári. Helstu ástæðurnar fyrir þessum auknu hittingum voru brúðkaup Áslaugar og Egils í Kaupmannahöfn í júní og svo velgengi Víkings. Það er eitthvað alveg fallegt við að íþróttafélag æskunnar sé að tengja okkur aftur, bikarleikir kvenna og karla megin. Áslaug flutti svo heim, við skelltum okkur á kvennakvöld Víkings og ætla að drekka kampavínið sem ég vann í happdrættinu þar með þeim á næstu vikum. (gott að skrifa þetta svona opinberlega)


Brúðkaupið var afskaplega fallegt og við Krummi fórum í gott frí saman yfir helgi. Veðrið var fullkomið og Kaupmannahöfn afskaplega ljúf.


Ég fór á Backstreet Boys í apríl með Rakel og Gissuri. Aaalveg geggjað. Vá hvað var gaman.


Baldur besti varð tveggja ára 8. maí. Það er svo gaman hvernig hann er alltaf að koma betur og betur í ljós, stríðinn og ljúfur, þrjóskur og grínari. Það var erfitt að koma honum í föt og úr fötum, að borða og gera sirka hvað sem við vildum að hann gerði. En þannig eiga jú líka tveggja ára börn að vera.


Í júlí héldum við matarboð (les: Krummi eldaði auðvitað allt) og það langar mig að gera oftar. Ætli ég þurfi ekki að fara að elda meira, fimmtánda árið í röð eða svo.


Við fórum við til Spánar með tveggja daga fyrirvara. Það var mjög næs, en ég vil frekar plana næsta sumarfrí með aðeins meiri fyrirara. Sumar og sól, börn í sundi og sjó og endalaus pizza og naggar.


Um verslunarmannahelgina fórum við í einnar nætur útilegu. Það rigndi og rigndi og Baldur vildi alls ekki sofa svo við fórum bara heim aftur snemma morguninn eftir. Ég er með miklar væntingar til þess að með hækkandi aldri barna verði þetta auðveldara…


Í lok ágúst fórum við Krummi í brúðkaup Nönnu og Owens í Þórsmörk. Afskaplega ánægjulegt, þrátt fyrir rigningu.


Haustið var algjört haust. Ekkert mjög markvert gerðist þannig, ég æfði ótrúlega mikið og það var geggjað. Afrek setti mikinn svip á lífið, ég var mjög dugleg að æfa og sérstaklega með lækkandi sól. Allt árið fór ég mikið á minn besta stað, Bjarmaland. Mamma mín var heiðruð í tilefni af ævistarfi hennar sem er enn í fullum gangi.


Þegar átökin brutust út í Palestínu fann ég fyrir hversu vanmáttug ég er gagnvart þessum átökum öllum. Ég ákvað samt að gera það sem mér finnst ég örlítið geta gert í mínu lífi hér og skráði mig sem sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum sem Leiðsöguvinur flóttafólks. Þar hef ég kynnst mæðginum sem ég hlakka til að kynnast betur.


Ég gerðist reyndar óvart hjólaáhrifavaldur þegar ég var fengin til að vera með innlegg á fundi borgarstjóra í Ráðhúsinu. Ég er bara venjuleg gella á hjóli og verð það áfram.


Ég fór til Strassborgar í vinnuferð, Yrsa varð fimm ára og aðventan var ljúf. Yrsa er svo skemmtileg og klár. Vinkonur hennar lituðu svo sannarlega lífið á þessu ári, ég spjalla örugglega meira við foreldra þeirra en flesta aðra í lífi mínu og er afskaplega glöð hvað þau eru skemmtileg og við samhent í að sækja þær og fara með í fimleika eða fótbolta. Það er ómetanlegt og Laugarneshverfið gefur og gefur. Þannig bara, takk Sigurbjörg og Agnar og Beta og Helgi.


Svo er alltaf bara æðislegt að liggja á sófanum og hangsa með Krumma mínum.


Ég setti mér markmið að lesa 40 bækur á árinu. Ég sá þó fljótt að ég myndi ná því markmiði vel fyrir árslok svo ég bætti í og þær urðu 52. Bók á viku. Upp úr standa Kjöt eftir Braga Pál, Vanþakkláti flóttamaðurinn eftir Dinu Nayeri, Ekki gleyma mér eftir Kristínu Jóhannsdóttur og Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur.


Á næsta ári langar mig að hitta vinkonur mínar meira, halda áfram að æfa, vera þolinmóð við börnin mín og leggja símann frá mér. Mig langar að halda áfram að lesa, en ég held ég ætli kannski bara að setja mér aftur markmið um 40 bækur og sjá svo hvað gerist. Það má ekki taka ánægjuna út úr lestrinum með því að vera með of háleit markmið. Markmiðið er bara að lesa. Það er það sem gefur.


Ég lít björtum augum fram á veginn. Verð 35 ára á næsta ári, Krummi verður fertugur og við búin að vera saman í áratug. Yrsa byrjar í skóla og Baldur fer vonandi í leikskóla í hverfinu. Lífið er gott.


Baldur og Yrsa á aðfangadagskvöld.

Hjónaleysi á bát í brúðkaupi. Gerist það betra?

Geggjaðir vinir í London. Takk fyrir allt skipulagið, Rakel og Gyða Lóa.

Við Arnrún tókum þátt í innanhúsmóti Afreks. Svo gaman?!


Æskuvinkonur með JPZ <3

Öll út að hjóla. Lífið verður betra. Ég lofa.


Börnin mín, nývöknuð.

Hversdagurinn er alltaf fallegastur.

Best.

Tveggja ára afmæli á Rauðalæk.

Sjaldséð selfie.

Þetta er fjölskyldan mín 💖





30.12.22

ÁRAMÓTAANNÁLL GLAMÚRGELLUNNAR 2022!

 Árið 2022 var eiginlega alveg stórkostlegt ár um leið og það var krefjandi.

Svona eins og lífið er og á að vera?

Þegar ég hugsa til baka get ég ekki ímyndað mér að við höfum byrjað árið innilokuð í einangrun fjögur saman vegna Covid19. Það eiginlega bara virðist tilheyra einhverri annarri tilveru, annarri vídd. 

Mér fannst alveg ótrúlega erfitt að vera í einangrun þar sem hún lengdist alltaf þegar eitt okkar tók við af öðru og maður hafði kannski í raun ekki svo mikla trú á þessum aðgerðum lengur. Ég varð þó laus fyrir afmælið mitt 12. janúar og ákvað eiginlega í fyrsta sinn að búa mér sjálf til góðan afmælisdag. Einhvernveginn finnst mér ég alltaf hafa beðið eftir öðrum að gera það og þótt ég hafi alltaf haldið partí (nema í ár…og fyrra) þá er afmælisdagurinn oft einhver blanda af gleði og vonbrigðum. Það er ekki gaman að eiga afmæli í svartasta skammdeginu, rétt eftir jól. En í ár var Krummi enn í sóttkví svo ég fór bara í fótsnyrtingu og drakk vín langt fram á nótt með vinkonum dansandi á miðvikudegi og það var æðislegt. Klárlega eitthvað til að taka betur með sér inn í fertugsaldurinn. Maður skapar hamingjuna jú víst sjálfur.

Í janúar keypti ég mér kort í Afrek og það var algjörlega frábært að æfa þar á árinu. Ég fann mojoið mitt aftur, eftir að hafa tapað því í Mjölni á síðustu árum. Allt í einu leið mér eins og ég gæti fundið (smá) tíma til að æfa sem gerir auðvitað líkama og sál að musterinu sem það á að vera.

Í lok febrúar tók ég hálfgerða skyndiákvörðun um að skella mér til Parísar með mannfræðiskvíz og það var æææðislegt. Fullkomnir dagar af wine and dine í fullkomnum félagsskap. Hugsa enn reglulega um kampavínið sem við drukkum á bláa og gyllta staðnum.

Ég byrjaði aftur að vinna eftir fæðingarorlof í mars og í ágúst skipti ég um vinnu eftir góð tæp 6 ár hjá Rauða krossinum. Þakklát fyrir allan lærdóminn þar en líka svo gott að skipta um umhverfi. Síðustu mánuði hef ég verið hjá Reykjavíkurborg, þar sem mér líður smá eins og ég sé komin „aftur heim“ en síðan taka ótrúlega spennandi verkefni við hjá landskjörstjórn á nýju ári. Ég er mjög spennt að takast á við krefjandi, nýja hluti. Mér líður smá eins og alheimurinn hafi sent mér þetta allt saman. Ég held að lærdómurinn sem ég tek frá þessum vistaskiptum mínum sé absalút að maður eigi að stökkva þegar maður getur. Bara segja einn, tveir og nú á meðan maður ruggar sé fram og aftur og þá nær maður á næsta húsaþak.

Baldur byrjaði hjá bestu Möggu og Sússí á vormánuðum, fagnaði eins árs afmælinu sínu í maíbyrjun og byrjaði svo og á ungbarnaleikskólanum í Bríetartúni í desember.  Hann er svo glaður og kúrsamur og duglegur og mikill kóngur. 

Um páskana fórum við Yrsa til Berlínar að heimsækja mömmu og pabba sem dvöldu þar á vormisseri og ég fór í vinnuferð til Kaupmannahafnar.

Eftir að hafa tapað, eða við skulum kannski frekar orða það þannig að eftir að hafa ekki unnið, í Betri Reykjavík að fá útigrill á Aparóló þá tókum við Krummi málin í okkar eigin hendur og stóðum fyrir tveimur grillum og einni aðventugleði á þessum besta leikvelli í bakgarðinum okkar. Ætli flest samtöl mín á árinu hafi ekki snúist um hvað það er gott að búa í Laugarnesinu og að Rauðalækur sé besta gatan. Ég vissi alls ekki áður hvað hverfi geta skipt mann miklu máli og verið hluti af manni og sjálfsmynd manns. Eins og ég hafi aldrei hitt Vesturbæing áður?? Sumt þarf maður bara að finna á eigin skinni!

Í vor kynntist Yrsa tveimur mjög svo góðum vinkonum sínum, þeim Móu og Áslaugu Mörtu enn betur og varð allt í einu svo stór - í heimsókn hjá þeim eftir leikskóla, boðin í leikskólaafmæli og allskonar. Með því fylgir auðvitað samgangur við foreldra stelpnanna sem eru alveg hreint frábær og ómetanlegt að eiga t.d. hauk í horni þegar mamma og pabbi eru sein að sækja eða vantar allt í einu …Það hefur verið mikill auður fyrir okkur öll að kynnast þessum stelpum og fjölskyldum þeirra.

Nokkrir stærri viðburðir voru á árinu, Auður frænka mín og Villi giftu sig í fallegu brúðkaupi í júní. Vínkonugrín var á sínum stað og Röskvuvinir mínir efndu til minningarathafnar í hlutverkaleik í einhverskonar spunapartí. Gríðarlegur undirbúningur margra sem liggur þar að baki og alltaf algjörlega ruglað dæmi. 

Í júlí fórum við til Ítalíu og Frakklands. Fjölskylduferð með mömmu og pabba fyrst, síðan bræðrum mínum og fjölskyldum og svo með Spilavinum í villu rétt fyrir utan Nice. Allt algjörlega yndislegt en líka krefjandi með tvo litla gríslinga. Ég held (og vona) að ferðalög og sumarfrí framtíðarinnar verði aðeins afslappaðri. Sólin og vínið og sundlaugarnar léku samt við okkur og samvera með okkar besta fólki skilar auðvitað alltaf miklu í hjartað.

Ég gekk upp að eldgosinu - eins og öll hafa gert en nú fékk ég tækifæri eftir barnsburð! Magnað dæmi náttúran. Smá geggjað að hafa gengið að þessu og svo niður aftur í svarta myrkri og miklum vindi. 

Í ár líkt og fyrri ár hef ég lagt áherslu á að lesa. Það er svo gaman. Ég las 37 bækur í ár. Markmiðið voru 35 og nokkrar voru reyndar mjög stuttar, en það var bara tilviljun og það virðast frekar margar bækur sem eru gefnar út vera stuttar? 

Upp úr standa Meydómur eftir Hlín Agnarsdóttur og Sextíu kíló af kjaftshöggum eftir Hallgrím Helgason og kannski Just Kids eftir Patti Smith fyrir að vera ógeðslega leiðinleg. Einhverra hluta vegna las ég mjög margar endurminningar eða ævisögur og m.a.s um fólk sem ég veit ekki hver eru og ég mæli alls ekki með því haha. 

Ef það er eitthvað sem ég myndi mæla með að fólk gerði á nýju ári þá er það að lesa. Fara hálftíma fyrr upp í rúm og lesa. Eða bara lesa fimm blaðsíður á kvöldi. Það gefur og gefur og gefur. Bókaklúbburinn Bækur hélt mér líka vel við efnið, en við eigum reglulega skemmtilega fundi á barnum á Brút.

Ég gaf Krumma Tern hjól í jólagjöf í fyrra og hann mér Cube Ella rafhjól í afmælisgjöf um þremur vikum síðar og við urðum hjólafjölskylda. Í febrúar endurheimtum við reyndar líka stolna hjólið okkar frá ágúst árinu áður sem var nokkuð magnað. Í maí seldum við bílinn okkar og höfum verið bíllaus síðan. Það hefur verið afskaplega lítið mál nánast alltaf. Kuldinn og færðin sl. daga hafa verið mest krefjandi en frá apríl og fram í lok nóvember var það nákvæmlega ekkert mál. Við sjáum til hvað nýtt ár ber í skauti sér, kannski fáum við okkur bíl þannig að við getum stækkað radíusinn okkar stundum en mér finnst þetta bara nokkuð ljúft. 

Haustið hefur í raun verið tíðindalítið, ég hef hitt marga skemmtilega vini og drukkið fullt af víni. Verið sæl og glöð. Farið í geggjuð matarboð. Við öll verið veik til skiptis. Almennt tíðindalítið en indælt.

Klettarnir í lífi mínu og okkar eru mamma og pabbi sem eru alltaf til staðar, boðin og búin að passa og ná í okkur og börnin og redda öllu og engu og líka bara vera. Þakklátust í heiminum fyrir þau.


Er ekki annars hversdagurinn samt alltaf bara í raun það markverðasta? Við höfum reynt að ná í börnin saman og leika úti beint eftir leikskóla áður en við förum inn sem er svo gott og gefandi. Á næsta ári væri ég til í að reyna að hafa örlítið minna drasl heima hjá mér og kannski elda stundum svo Krummi þurfi ekki alltaf að gera það og borða hollara. Ég er alveg búin að vera svolítið buguð móðir þetta árið, en það er líka krefjandi að eiga 3 ára og 1 árs börn. Allar klisjurnar vilja renna hér fram, hvað þetta er það besta en erfiðasta, mest krefjandi. Hvað börnin séu yndisleg. Klisjur eru til af ástæðu.

Glamúrgella.blogspot.com varð 20 ára í desember. Það er sturluð staðreynd, þótt það sé auðvitað nokkuð lítið að frétta hér allajafna. Mér finnst samt mikilvægt að eiga þennan stað og halda þessu svo og svo við. Stundum langar mig að skrifa langt, og mér finnst mikilvægt að eiga það allt einhversstaðar - jafnvel þótt ég skammist mín ofan í tær fyrir 98% af því sem ég hef skrifað.


Ykkar einlæg, spennt og þakklát.


Yrsa tók mynd af okkur Krumma.

Fallegu börnin mín í flaueli.
Spider-Yrsa.

Fjölskylda í Toskana.

Lýsandi fyrir lífið.


Ég var algjör gella á Ítalíu!



7.9.22

Hverfið mitt I

Ég man hvað Bjarmalandið var alltaf langt. Óendanlegt. Frá skólanum var Haðalandið búið. Grundarlandið búið. Farið að kvarnast vel úr barnaskaranum sem gekk heim á leið og ég þurfti að ganga allt Bjarmalandið á enda. Stundum var ég á hjóli og þá þurfti ég að passa mig mjög vel þegar ég fór göngustíginn milli Brautarlands og Bjarmalands því hellurnar höfðu gliðnað á mörgum stöðum og sérstaklega á einum stað, akkúrat í miðjunni, gat maður fest dekkið á hjólinu ofan í og dottið ef maður fór ekki varlega.

Einu sinni festi ég skóreimarnar í pedalanum. Þær höfðu vafist hring eftir hring, alla leiðina sem var svo löng. Allt í einu þrengdi skóinn svo að. Ég gat ekki gert neitt. Ég var pikkföst. Ég var rétt hjá heima en ég gat ekkert gert. Þennan daginn fór ég meðfram götunni í Bjarmalandinu, ekki efri göngustíginn með gleiðu hellunum. Akkúrat þennan dag var vinnumaður þarna rétt hjá sem gat lyft mér yfir hjólið. Það var vont og ég var hrædd og ég skammaðist mín líka. En hann losaði mig úr prísundinni. Ég hugsa oft hvað hefði annars gerst. Í vetur fór ég á bíl heim til mömmu og pabba og það var mikill krapi í botnlanganum, svo mikill að ég var ekki viss um að ég myndi komast þaðan. Ég hugsaði með mér að ég gæti setið í bílnum í tvo tíma áður en nokkur einasta manneskja væri sjáanleg. Allt öðruvísi en í nýju götunni minni þar sem er alltaf fólk að ganga. Eins gott að vinnumaðurinn var þarna þennan dag.

Ég man að labba í strætó. Svo langt. Eiginlega eru minningarnar flestar um hvað það var rosalega langt í allt. Hvort átti ég að hjóla upp alla brekkuna í Grímsbæ eða fara auðveldari leiðina í Snælandsvideo til þess að kaupa nammi eða leigja spólu? Það var auðveldara að fara í Kópavoginn, en þar þekkti ég engan. Myndi ekki rekast á neinn. En það var erfitt að hjóla upp alla brekkuna, en auðvelt að fara hratt niður. Einhvernveginn finnst mér eins og ég hafi oftar valið Snælandið. Bjarmalandið var samt ekki jafn langt í burtu og Markarvegurinn, en þau höfðu einhvernveginn annan heim fyrir sig svo það var smá öðruvísi. Það var hverfi í hverfinu.

Ég fór í klippingu í Grímsbæ. Ekki til rakarans heldur uppi. Ég fékk klippikort hjá þeim þar sem 10. hver klipping var frí og einu sinni sagði konan við mig að ég hefði nú alveg komið áður til þeirra, hvort ég ætti ekki klippikort heima. Hvað með það þótt ég hafi gleymt því einu sinni heima? Af hverju þurfti hún að tala um það?

Ég átti ljóta, græna flíshúfu. Ég var einu sinni með hana á höfðinu þegar ég kom í klippingu. Þær sögðu að ég væri voðalega úfin. Mér fannst ég alltaf ljót með hana og hef ekki notað húfur síðan. Eða. Ég hefði ekki notað húfu síðan ég týndi flottustu húfunni í 8. bekk. Hún var líka svona blágræn með glimmeri í. Ég týndi henni á handboltalandsleik í Laugardalshöll. Ég held ég hafi a.m.k. farið tvisvar að leita að henni en fann hana aldrei og síðan þá hef ég ekki notað húfu. Ég hef ekki týnt mörgum hlutum um ævina. Einu sinni týndi ég eyrnalokk á djamminu. Hugsa enn reglulega um hann. Og húfuna góðu.

31.12.21

GLAMÚRGELLUANNÁLL 2021

Áramótaannáll virðist vera orðinn eini fasti punktur í tilveru Glamúrgellunnar. Eftir því sem ég eldist kemur andinn sjaldnar yfir mig, sem er svo sannarlega sorglegt.

Þetta ár, eins og síðustu ár, hefur litast alltof mikið af Covid19 og vonum og vonbrigðum yfir því að við munum nú loksins sigrast á þessu. Maður var ekki fyrr búinn að losa sig við grímur úr vösum en maður þurfti að fylla á þá alla aftur.

Það besta og fallegasta við árið var að sjálfsögðu þegar Baldur minn besti fæddist. Hann er skríkjandi glaður oftast, en tuðar þó stundum þegar hann nennir ekki að þykjast borða lengur. Ég fann hvernig það er þegar hjartað stækkar um helming. Hvernig það er þegar allt í einu er pláss fyrir alla ástina til viðbótar við fyrra barn, eitthvað sem ég skildi ekki hvernig væri hægt áður.

Fyrsta árið í lífi barna er samt svo mikil áskorun. Ár sem snýst ekki um neitt nema svefn – svefnleysi foreldra og svefn barna ... Hvenær sofnaði hann? Hvenær vaknaði hann? Hvenær þarf hann að leggja sig aftur? Hvernig svaf hann í nótt? Náðir þú að leggja þig? Má ég aðeins leggjast niður núna?

Árið 2021 var ár hversdagsleikans. Heima með börnunum. Göngutúrar. Horfa á sjónvarpið. Hanga í símanum. Elda fisk á mánudögum. Pizzu á föstudögum. Taka endalaust til en aldrei árangur. Þvo rosalega mikinn þvott. En árið var líka það að átta sig á því að þetta er það sem lífið er og þarna þarf maður að finna hamingjuna. Gleðjast yfir því að sitja öll saman og borða. Yfir því að fara á róló. Yfir því að fara í sund eftir leikskóla. Yfir því að fara í heimsókn til afa og ömmu. Ég vissi það samt alveg fyrir, en komst samt bara enn betur að því í ár því þetta ár var svo hversdagslegt.

Besta ákvörðun sumarsins var þegar ég gafst upp á veðuröfundinni og fann gistingu fyrir okkur á Egilsstöðum í bongó blíðu. Besta ákvörðun haustsins var að fara til Brussel með Guðrúnu og Kríu að heimsækja Ásdísi og Hallgrím og dætur. Þvílík gleði og gæfa að eiga góða vini. Þær stundir á árinu sem varið var með vinum voru svo ofboðslega góðar. Spilavinir eru okkur fjölskyldunni svo kærir og sumarbústaðaferðir og hittingar með þeim skilja mikið eftir sig, hjá fullorðnum sem og börnum. Engar finnst mér skemmtilegri en MH konurnar mínra og ég hef notið þess heiðurs að vera plús einn hjá mannfræðiskvís sem mér þykir svo gaman og vænt um.

Yrsa mín besta var svo skemmtileg alltaf. Svo frjótt ímyndunarafl og mikil gleði og gaman að fylgjast með henni uppgötva heiminn.

Víkingur varð Íslands- og bikarmeistari í fótbolta karla og mitt svarta og rauða hjarta sló að sjálfsögðu örar yfir þessum árangri sem ég satt að segja átti aldrei von á að lifa, svona miðað við gengið frá 92 eða hvenær það var í flestum íþróttum. Mér þótti afskaplega gaman og vænt um að fara með æskuvinkonu minni Tinnu á leikinn, rétt eins og að hitta Réttó vinkonurnar í okkar árlegu Eldofnspizzu fyrir jól. Vinir maður. Þeir eru svo mikilvægir.

Ég starfaði við kosningar sem mér þótti jafn gaman og vanalega. Það er eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri.

Gígja frænka dó óvænt í september og mér finnst ég ekki enn alveg hafa náð utan um það að hún sé ekki hér lengur. Hjólinu okkar var stolið sem var og er ennþá alveg ööömurlegt. Ég held lúmskt enn í vonina að það finnist.

Ég enda árið í Covid einangrun, gleðst yfir að vera ekki mjög veik, gleðst yfir því að einangrunin hafi verið stytt í 7 daga og vona núna bara að þeir verði fimm á næstu dögum...

Annars ættu orð eiginlega að vera óþörf fyrir þetta ár, því ég tók upp eina sekúndu á hverjum degi og leyfi því myndbandi að birtast hér mér.




Og .. ætli ég hafi ekki verið sirka eini Íslendingurinn sem ekki gekk að eldgosinu.

Ég hlakka til ársins 2022 sem ég held að verði mjög gott. Ég lít a.m.k. björtum augum til framtíðar með fjölskyldunni minni, Ítalíuferðar, 33-ára ferðar vinkvennanna og ótal góðra stunda með fólkinu okkar. Vinum og fjölskyldu. Megi stundirnar verða margar. Fleiri. Minna Covid, meira gaman.

Þakklátust er ég fyrir Krumma minn besta sem stendur með mér í þessu öllu. Í gleði og sorg. Blíðu og stríðu.

 

7.10.21

 Tveir fastir punktar í tilverunni eru horfnir.

Daginn eftir jarðaför Gígju frænku minnar dó besti vinur pabba síðan í menntaskóla, Jón Bern. Ég er einhvernveginn enn að ná utan um þetta. 


Það verða svo skrýtin jól. Engin Gígja sem kemur í Bjarmaland. Engin Gigja um páskana. Engin símtöl frá Gígju á miðvikudögum ef maður var ekki nógu fljót að skrifa athugasemd við listasýningarnar á Facebook. Símtöl sem gátu komið þegar maður var með fullar hendur, á fundi í vinnu, með börn á handleggnum. Símtöl sem maður saknar. Engar nýjar myndir. Nú hengi ég myndirnar upp sem hafa beðið. Andrés Önd hefur átt sinn stað á öllum mínum heimilum. Ég sá ekki fegurðina í henni fyrr en Krummi benti á hana og vildi fá hana heim. Stundum er maður svo blindur á það sem stendur manni næst. 


Engar kvöldstundir þar sem Jón og pabbi sitja saman að gæða sér á þýskum pulsum, með bjór í glasi - jafnvel einhverju alveg sérstöku glasi, með einhvern alveg sérstakan bjór og alveg sérstakar pulsur. Þeir að spjalla saman um heima og geima. Jón alltaf talsvert glettnari en pabbi. Ég heyri röddina, hláturinn. Og mér finnst það sárt. Það var langt síðan ég hitti Jón síðast og ég hef saknað þess. Ég hefði verið til í Münchenarferð með honum og pabba þar sem þeir segðu endalausar sögur af mönnum og málefnum. Færu á alveg ákveðna staði. 


Ég man hvenær ég hitti þau bæði síðast og ég er svo ánægð með báðar stundir. Það er gott. 


Ég er eitthvað mjög leið yfir fráfalli þeirra beggja í dag. Kannski er það vindurinn og haustið. 


Bergþórugata

Blönduhlíð

Rauðalækur







30.12.20

Glamúrgelluannáll 2020

 

Ég setti Yrsu í pössun beisikklí svo ég gæti skrifað áramótaannál Glamúrgellunar 2020 en ég get ekki byrjað. Fæ mig ekki til að líta um öxl. Við erum öll með tilfinninguna að þetta sé lengsta ár sem við höfum nokkurn tímann lifað. Þetta ár er mjög litað af vinnunni minni. Strax í janúar vildi maður fá að fá smá pásu frá öllu sem á undan hafði gengið. Óveðri í desember, snjóflóð í byrjun árs sem rifu upp erfiðar tilfinningar margra, alvarleg rútuslys, skógarelda í Ástralíu sem skóku heiminn allan...

Ég var kölluð í samhæfingarstöð almannavarna einn sunnudaginn í janúar vegna hættu á eldgosi í Grindavík. Þar var samt minnst eitthvað á kórónuveiruna, starfsfólk utanríkisráðuneytisins fannst mér kannski mest vera að pæla í henni og ég pældi svosem lítið í þvi. Jújú, það voru einhverjir vikulegir stöðufundir sem ég vissi að væru í gangi en ekki mikið meira en það. Þangað til að allt í einu var ég alla daga í gluggalausu rými samhæfingarstöðvarinnar, þar sem hitastigið er allajafna nokkrum gráðum lægra en í eðlilegum herbergjum þar sem fólk er oftast undir nokkru álagi og stressi þegar þangað inn er komið og betra að hafa herbergið ekki of heitt. Allt í einu bjuggum við til covid.is. Hófum upplýsingafundi. Skrifuðum stöðuskýrslur. Svöruðum þúsundum fyrirspurna til almannavarna. Og enn eru þau að, en ég sneri mér aftur að Rauða krossinum sem ég hafði haft í bakhöndinni allan þennan tíma.

En ég er víst komin fram úr mér í tíma. Fram úr mér í vinnulífinu.

Í janúar varð ég nefnilega 31 árs og hélt upp á það eins og þrítug væri. Það var ótrúlega gaman. Partí og stuð og stemming. Hreimur kom og söng. Ógeðslega gaman. Skemmtilegu vinir mínir. Fallegu gjafirnar sem ég fékk.

Við Krummi gistum eina nótt í Stykkishólmi í janúar sem var yndislegt. Mikið er ég glöð að við fórum þá.

Á árinu fékk ég að vera með í bókaklúbbnum Bækur sem er ótrúlega skemmtilegt. Það hefur alltaf gefið mér mikið að lesa og ég fann að í þessu ástandi öllu gaf mér það enn meira. Ég lagði áherslu á að lesa eitthvað á hverjum degi, bara nokkrar blaðsíður fyrir svefninn og loka deginum. Ég er svolítið á móti því að mæla fjölda bóka sem maður les, rétt eins og telja skref, æfingar, hitaeiningar, hvað sem er. Við erum með það á heilanum að skrásetja og telja allt í heiminum og ég læt það fara eitthvað í taugarnar á mér. En svo er samt gaman að sjá hvaða bækur ég las, rifja þær upp og ég fann alveg fyrir smá hvatningu að vilja að lesa meira þegar ég var með eitthvað markmið. Ég held að þetta kallist hræsni 😊

En bókaklúbburinn er góður. Góðar konur sem hittast og ræða bók. Ég vona að ég fái að hitta þær meira í alvörunni á næsta ári og að ég nái að vera dugleg að lesa, sérstaklega eftir að viðbót bætist við fjölskylduna með tilheyrandi svefnrugli.

Ég var í innslagi hjá Berglindi í Vikunni í febrúarbyrjun og í tískuþætti í Fréttablaðinu um miðjan febrúar. Það er svo langt síðan að þetta gerðist ég mundi það ekki einu sinni. Ég er nb. mjög stolt af því að hafa verið valin til að tala um fatastílinn minn. Árangur ársins!

Ég get eiginlega talið skemmtanir ársins bara allar upp. Það var afmælið mitt, þrítugsafmæli Evu Sigrúnar og ættarmót Þingborgarættarinnar í lok febrúar. Sex dögum síðar greindist fyrsta kórónuveiran. Þakklát og glöð fyrir LARPið góða með Röskvuvinum mínum. Alltof gaman, alltof fyndið. Svo náðum við reyndar líka að halda frábært Vínkonugrín í júlí! Það virðist eitthvað alveg fjarlægt að það hafi mátt og verið í lagi akkúrat núna, en mikið þykir mér alltaf vænt um þessa skemmtun með MH vinkonum mínum.

Nokkrar sumarbústaðaferðir með spilavinum sem fara ört stækkandi. Allt í einu verður það sem var sex manna hópur orðið 10 manns (eða ... fjórar litlar manneskjur) næsta sumar. Ísafjarðarferð þar sem svona eftir á að hyggja var Yrsa mín alveg örugglega lasin.

Við settum Blönduhlíðina á sölu í byrjun júní og fluttum í lok sumars að Rauðalæk. Hér líður okkur vel í yndislegu hverfi. Algjört hér eigum við heima dæmi. Dýrka það.

Ég fór í afskaplega nauðsynlegt leyfi í júlí og ágúst. Kúplaði mig alveg frá vinnu. Tankurinn var mjög tómur eftir vinnu frá því um haustið í raun. Ýmislegt spilaði inn í og það var aftur gott að fara í langt jólafrí núna, þótt það hafi reyndar styst örlítið vegna enn meira almannavarnarástands – nú á Seyðisfirði. Ég vona að næstu mánuðir verði rólegri í vinnunni, aðallega því það þýðir að það eru ekki hamfarir að dynja á neinum.

Það hittist þannig á að við Krummi fórum út að borða tvisvar sinnum áður en strangari reglur um fjöldatakmarkanir tóku gildi. Fyrst í mars á afmælinu hans á La Primavera og síðar í októberbyrjun á Austur Indíafjelagið áður en frekari takmarkanir tóku gildi. Við ættum kannski að sleppa því að fara út að borða á næstunni...

Þetta ár fórum við Yrsa svo mikið í heimsókn í Bjarmaland til mömmu og pabba. Bara að tjilla. Best.

Í septemberbyrjun byrjaði Yrsa á leikskóla. Þar eru hún sæl og sátt, lærir svo margt og er allra best. Lífið allt er auðvitað hún.

Ætli stærstu persónulegu fréttirnar séu þó ekki þær að eiga von á öðru barni á bjartara, betra, skemmtilegra 2021. Meðgangan er hálfnuð og ég finn svolítið meira fyrir henni en þeirri síðustu en samt ekkert til að tala um. Ég hlakka svo til að kynnast þessum einstakling og sjá Yrsu mína verða að stóru systur. Elsku hjartans stúlkuna.

Ég útnefni hér mann og konu ársins 2020 og þaaaaau eruuuuuuuu





Maður ársins: Hrafn Jónsson

Kona ársins: Yrsa Hrafnsdóttir

BÚMM!



--

Við lok árs er ég þakklát fyrir allt góða fólkið sem ég kynntist í störfum mínum hjá almannavörnum og reynsluna. Þakklát fyrir fjölskylduna mína og vini sem ég ætla að hitta svo miklu meira á nýju ári og þakklát fyrir heilsuna. Mér fannst 2020 frekar erfitt ár og kæfandi tilfinning að kljást við þetta ástand oft á tíðum.

Á nýju ári vona ég að Myllan sjái sér fært um að skera beyglurnar sínar almennilega, okkur öllum til heilla.

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur Glamúrgellunnar. Megi 2021 verða okkur öllum gott með bóluefni og bjartari tímum.

 


 

8.9.20

 Ég er byrjuð aftur að vinna og það er mjög gaman og gott. Ég náði að hvílast vel í sumar og hlaða mín mjög svo tómu batterí. Ég held að einhver sniðugasta ákvörðun sem ég hef tekið hafi verið að fara fyrr en síðar í leyfi, byrja fyrr en síðar að hlaða batteríin að nýju.

Og nú er haustið komið, með allri sinni rigningu og fallegu litum, upphafi leikskólagöngu hjá Yrsu minni í gulum stígvélum og rauðum pollagalla. Ég hlusta á Funeral með Arcade Fire eins og ég gerði líka haustið 2005 þegar ég byrjaði í MH og fór stundum inn í Norðurkjallara en var samt mest bara á Matgarði með JT. Það gerðist í gær, en það gerðist líka í fyrra lífi. Ég man tilfinningarnar samt allar. Það eru tíu ár síðan ég byrjaði í lagadeildinni. Tíu ár? Man það einhvernveginn minna, en man samt allt. Græt það svo oft að ég muni aldrei aftur hefja háskólanám sem stúdent á þrítugsaldri. Það var svo alltof gaman. Svo gaman að vera til núna líka samt. Svo gott að vera bara fullorðin og elda mat og þvo þvott og fá samviskubit þegar maður sér hvað öll hin börnin á leikskólanum eru vel útbúin en Yrsa á ekki vettlinga né kuldagalla. Ekki ennþá, en mamma fer í búðina á eftir af því drottinn minn dýri hvað mér leið illa.

Arcade Fire er MH en Röskva er Arcade Fire. Tvö tímabil. Gæti eitt 2009 partí með Röskvuliðum sem endaði í hring að öskra við FM Belfast daginn áður en við færum svo að bera út Röskvublöð í öll hús á höfuðborgarsvæðinu.

Allt er hægt þegar maður er tuttugu, en allt er líka hægt þegar maður er þrjátíuogeins. Maður þarf bara stundum að fá pössun og er kannski sofnaður fyrir miðnætti og einhver er alltaf ólétt en það er líka það dýrmætasta.

20.8.20

Ég man vel eftir sundlauginni við hótelið í Sesimbra. Hún var hringlaga og það var risastór stjarna úr mósaíkflísum á botninum á henni. Það rigndi hins vegar allan tímann meðan við dvöldum á hótelinu svo ég fór aldrei í hana. Ég man líka vel eftir öllum sverðfiskunum sem voru við höfnina. Ég smakkaði þá ekki heldur. Ég man að það var frekar kalt á kvöldin, mamma hafði bara tekið eina peysu fyrir mig og hún var hvít í þokkabót. Ég vissi ekki hver Tom Cruise var, en fjölskyldan var alltaf að tala um að einn gesturinn á hótelinu liti út eins og hann. Svo hætti Geri í Spice Girls og ég var niðurbrotin. Það var risavaxið fyrir mig, við kveiktum á útlendum fréttum og ég fylgdist með grátandi aðdáendum trúa ekki sínum eigin eyrum. Ekki ég heldur.

Ég hitti vinkonu mína þarna úti. Hún var á öðru hóteli, þar sem Bangsaklúbbur Úrval útsýnar var starfræktur. Á meðan voru foreldrar mínir og bróðir að gera eitthvað annað. Ég man að þau höfðu gengið mjög mikið þennan dag. Ég var afbrýðissöm þegar þau náðu í mig. Mig hefði í raun miklu frekar langað að vera með þeim. Ég vildi eiginlega bara alltaf vera með foreldrum mínum. Það var skemmtilegast og annars missti ég af. Svona eins og þegar allir í fjölskyldunni horfðu á Fargo nema ég af því ég var of lítil og svo töluðu þau um hana í mörg ár á eftir. Ég hef ekki enn séð hana.


Ég veit ekki af hverju þessar hugsanir ásækja mig þessa dagana. Kannski af því ég er orðin fjölskylda og væri alveg til í að dvelja á hóteli á Albufeira á Portúgal, en væri líka til í að keyra um og fara á heimssýninguna í Lissabon. Þar sem við keyptum langa fuglinn úr tréinu sem upplitaðist svo í sólinni heima í Bjarmalandi.


Kannski af því ég er að flytja? Kannski af því foreldrar mínir áttu fjörutíu ára brúðkaupsafmæli um síðustu helgi og þau fóru með mig í svo mörg góð ferðalög? Sýndu mér heiminn og allt var og er aldrei einhvernveginn ekkert mál. Þau eru besta fólkið.


Ég get a.m.k. ekki hætt að hugsa um Portúgal. Þetta var fyrsta og eina sólarlandaferðin sem fjölskyldan fór í. Foreldrar mínir áttuðu sig á því að það var ekki alveg fyrir þau. Þau langaði frekar að skoða söfn og borgir en að liggja bara í sólbaði í menningarsnauðum bæjum. Ég vona að ég komist að því líka. Það sem situr eftir hjá mér er a.m.k. ekki vera okkar á hótelinu í Allbufeira.

23.6.20

Það er almennt mjög mikið að gera hjá mér í vinnunni, örugglega eins og hjá flestum. Ég hef mjög gaman af því að starfa sem upplýsingafulltrúi Rauða krossins þótt mér líði alltaf eins og ég geti gert betur og meira. Verkefnin og málefnin sem við sinnum eru nánast óteljandi og helst myndi ég vilja að allir vissu allt um hvað starfið er magnað, að við værum í öllum fjölmiðlum alla daga, skrifandi greinar um menn og málefni og sinnt þannig málsvarastarfi okkar. En starfskraftar manns eru víst ekki óþrjótandi og tíminn af skornum skammti þannig að ég geri bara mitt besta í samskiptum og upplýsingamiðlun innan félagsins og utan.

Þessi vetur hefur verið óvenjulegur fyrir okkur öll. En hjá viðbragðsfélagi eins og Rauða krossinum hefur veturinn verið enn meira krefjandi. Meira krefjandi en ég hef áður kynnst í í starfinu mínu. Í desember flaug ég norður til Akureyrar til að aðstoða samstarfskonur mínar þar þegar óveður geisaði. Óveður sem ég man ekki eftir í minni tíð, rafmagnsleysi á fjölmörgum stöðum, hross drápust og strákur týndi lífi sínu. Í janúar féllu snjóflóð á Vestfjörðum og í starfi mínu felst að veita upplýsingagjöf fyrir almannavarnir þegar samhæfingarstöðin er virkjuð. Það er ótrúlega gaman og krefjandi og lærdómsríkt að fá að taka þátt í fyrstu viðbrögðum, þótt vissulega sé samhæfingarstöðin aldrei virkjuð af ánægjulegri ástæðu. Það er orka og vinna sem fer fram þar sem er merkilegt að vera hluti af.

Svo lét Þorbjörn á sér kræla, eftir alvarlegt rútuslys og fleira í janúar, en enn sem komið er var og er Grindavík ekki það sem við þurftum að hafa áhyggjur af, heldur kórónuveiran. Þegar ég sat fund á sunnudegi um viðbrögð við landrisi á Suðurnesjum var kórónuveiran einhvernveginn svo fjarlæg. Ég hugsaði með mér að það gæti ekki verið að þetta yrði stórt, alveg eins og ég trúði því ekki að það gæti gosið. En. Allt getur gerst.

Við tóku margar vikur þar sem allt var á milljón. Mér fannst mjög erfitt að hafa tvo hatta á mér, sinna upplýsingagjöf fyrir almannavarnir sem og Rauða krossinn. Reyna að sinna báðu. Samstarfskona mín tók á sig meiri vinnu svo ég gæti einbeitt mér betur að almannavörnum en maður getur ekki sleppt tökunum á sinni venjulegu vinnu svo auðveldlega.

Ég fann í raun frekar snemma að ég átti erfitt með þetta. Verkefnin virtust oft óyfirstíganleg, þótt þau væru það alls ekki. Mann langar bara að gera vel. Sinna öllu og gera það vel. Skila af sér góðu dagsverki þar sem maður gat komið öllu til skila sem maður vildi. Og mér fannst mér ekki takast það. Og það situr í mér. Ég er vön að svara tölvupósti um hæl, ganga í verkin og klára þau. Ég gengst svolítið upp í því jafnvel. Það er mitt. Ég er fljót til verka. Og ég missti öll tök í febrúar, mars og apríl og maí. Á sama tíma fannst mér ég ekki gera neitt svo mikið eða merkilegt hjá almannavörnum. Ekki verða nægjanlega mikið úr verki.

Andlegt álag af kórónuveirunni er held ég meira en við gerum okkur mörg grein fyrir. Það er alveg grillað að skipta um takt í vinnunni fullkomlega. Vera allt í einu heima og þótt það sé gott að mörgu leyti eru það gríðarleg viðbrigði. Fyrir utan hvað það er mikilvægt að líða vel heima hjá sér og hafa góða aðstöðu. Það verður mjög forvitinilegt hvernig rannsóknir í kjölfar faraldursins á andlegri líðan verður. Eða eins og ég, vinna á allt öðrum stað og vera einmitt ekki heima þegar allir aðrir eru heima.

Og ég hugsa oft til t.d. þríeykisins sem var undir töluvert meira álagi en ég og mér finnst ég frekar mikill aumingi að vera í veikindaleyfi og löngu sumarfríi til að ná áttum, safna kröftum.

En mér líður bara ekki vel. Ég er þreytt og ég er hætt að koma mér að verki í vinnunni og þá er það sem maður þarf að kúpla sig út, þannig að maður brenni ekki út. Allt í einu finn ég fyrir hlutum sem ég skil ekki alveg. Mér finnst allt í minni venjulegu vinnu líka óyfirstíganlegt. Ég get ekki svarað tölvupósti og afgreitt einföld mál. Ég veit einhvernveginn ekki neitt annað en að ég er úrvinda í öllu sem tengist vinnunni minni en að öðru leyti svo glöð og hamingjusöm.

Ég glími við mína eigin fordóma fyrir streitu og álagi og jafnvel kulnun, ég finn það mjög vel núna. Mér líður eins og aumingja – um leið og mér finnst mjög beisikk að ég passi upp á mig og slaki á. Ég á held ég fyrst og fremst erfitt með samanburðinn. Samanburðinn við alla hina og störf sem eru miklu meira krefjandi.

Nú þarf ég aðeins að hugsa hvernig ég ætla að tækla þetta í framtíðinni, þegar ég mæti aftur eftir sumarfrí. Hvernig ég passa upp á mig og höndla álag – af því ég hef getað það mjög vel hingað til og ætla mér að geta það í framtíðinni.

1.1.20

Árið 2019 var svo sannarlega öðruvísi en öll fyrri ár. Fyrsta árið okkar með Yrsu og við urðum allt í einu i öðru sæti, sem er alls ekki verra en að vera í því fyrsta – en það er öðruvísi og það er kúvending á lífinu.

Árið hófst í ruglinu. Ég svaf þegar ég gat, aldrei meira en tvo til þrjá tíma í senn. Algjört rugl og mjög erfitt. Lífið gjörbreytt á svo góðan en líka erfiðan hátt.

Ég varð þrítug 12. janúar. Ég hef alltaf haldið upp á afmælið mitt með pompi og prakt en í ár borðaði ég hádegismat með góðum vinum í Perlunni og fékk bland í poka. Þrjátíuogeinsárs afmælinu verður hins vegar fagnað rækilega og ég get ekki beðið!

Þann 16. febrúar fékk Yrsa nafn. Nafnið kom til mín ekki svo löngu eftir að hún fæddist. Ég get ekki útskýrt það öðruvísi en að það kom til mín. Mér fannst hún vera Yrsa og eiga að heita Yrsa. Krummi þurfti smá tíma til að hugsa um það – skiljanlega. Nafnið finnst mér fara henni afskaplega vel og hún er algjör Yrsa.

Yrsa, Björg og Hugi á góðri stundu - áður en þau kunnu að sijta ...
Það sem einkenndi árið hvað mest er að sjálfsögðu fæðingarorlofið. Það var gott en líka erfitt. Það er alveg ljóst að orlofið hefði ekki verið neitt ef ekki hefði verið fyrir samveru með Evu Sigrúnu, Huga, Tótu og Björgu. Það er gulls ígildi að eiga góðar vinkonur sem eru að ganga í gegnum það sama, geta deilt því sem er í gangi, fengið ráð og bugast yfir svefnleysi saman. Við vorum ótrúlega heppnar að veðrið í sumar var það besta sem ég man eftir. Ég fór út á stuttbuxum og hlýrabol endalaust. Ég gekk út um allt með kerruna. Ég varði meiri tíma á Kaffi Vest en ég hef varið tíma á nokkru kaffihúsi og það var æðislegt. Ég hef aldrei verið jafn mjó eins og í sumar og ég borðaði hollt og það var bara alveg geggjað. Ég gat byrjað að æfa aftur og það er ekkert sem jafnast á við það. Ég finn svo vel hvað það gefur mér mikið að hreyfa mig, enn betur núna en nokkru sinni áður. Ég bara hreint út sagt elska það. Ég er í betra formi núna en örugglega nokkru sinni áður, þótt ég æfi almennt minna. Ég nýti hverja æfingu eins vel og ég get og þar slaka ég á og hreinsa hugann.

Emma & Geri
Í júní fórum við litla fjölskyldan ásamt Bryndísi frænku til London þar sem við frænkurnar létum æskudraum rætast og sáum Spice Girls á Wembley. Krummi gaf mér miðana í þrítugsgjöf. Hvernig getur hann alltaf gefið bestu gjafir í heimi?!

Það var alveg mjög magnað og ég hefði ekki viljað missa af þeim. Geri var átrúnaðargoðið mitt í mörg ár, ég var miður mín þegar hún hætti í hljómsveitinni svo þetta var alveg frekar magnað allt. Eftir London fórum við til Ítalíu þar sem við dvöldum í villu í Flórens með allri fjölskyldunni minni í viku. Umhverfið var svo sannarlega draumi líkast og það var frábært að njóta við sundlaugina, drekka vín og sóla sig. Eftir villuna fórum við með Atla og Ásrúnu og sonum og mömmu og pabba í annað hús í smábæ rétt við Lerici áður en við Krummi og Yrsa fórum á lokaáfangastað á hótel sem hefði getað verið í Wes Anderson mynd. Ítalía var frábær – en aftur öðruvísi en áður þegar ein lítil stúlka stjórnar ferðinni. Ég er með drauma um að fara í frí með góðum vinum sem eiga líka lítil börn svo allir séu á sama tempói. Sjáum hvað 2020 ber í skauti sér í þeim efnum!

MH gaf mér þessar.
Fastir liðir eins og Vínkonugrín voru að sjálfsögðu við lýði. Það heppnaðist afskaplega vel þetta árið og konur voru í miklu stuði.

Ferðbúin á leið vestur!

Um verlsunarmannahelgina giftu Kristel og Daði sig og það var yndislegt. Helgina eftir gifti Eva Björg æskuvinkona mín og Magnús sig á Ingjaldssandi á Vestfjörðum. Við fjölskyldan ætluðum öll í ferðalag, en þegar veðurspáin var nokkuð slæm ákvað ég að fara bara ein. Allt gekk svo vel upp, Brynja Huld bauð í kaffi, kringlur og spjall og skutlaði mér til Suðureyrar þar sem Tinna, Hörður, Álfhildur og Pétur tóku á móti mér. Það var alveg ótrúlega gaman að verja tíma með þeim og endurnýja kynnin. Brúðkaupið var skemmtilegt í sveitinni og allir í svakalegu stuði.

Um miðjan ágúst fór ég aftur til vinnu. Ég eins og örugglega allar konur sem hverfa frá í marga mánuði var nokkuð stressuð um hvernig það myndi verða, hvort ég yrði áfram glöð, hvort allt hefði breyst o.s.frv. Í stuttu máli er ég afskaplega glöð í vinnunni, mér finnst hún skemmtileg og krefjandi og hún skiptir máli. Á sama tíma hóf Yrsa nýjan kafla í sínu lífi þegar hún byrjaði hjá dagmömmum. Fyrsta daginn í aðlögun settist hún á gólfið, leit einu sinni aftur fyrir sig á pabba sinn en hefur ekki litið um öxl síðan. Henni finnst gaman, eins og eiginlega allt annað sem hún gerir, og er sæl í sínum verkefnum þar.

Í september varð Víkingur bikarmeistari í fótbolta karla og það var eiginlega alveg geggjað! Að hafa æft með félagi sem hefur ekki unnið í neinu nema borðtennis síðan 98 ... það var gaman.

Í lok september fór ég síðan til München. Tilgangur ferðarinnar í upphafi var að fara í brúðkaup hjá bestu vinkonu minni í Þýskalandi, en svo fór að hún gifti sig ekki. Ég varði því helgi í München með henni, m.a. á Októberfest og það var hreint út sagt frábært.

Glöðust. Alltaf.
Þann 29. nóvember varð Yrsa svo eins árs. Það var mun tilfinningaríkari dagur en ég hefði búist við. Ég var mjög meyr og þakklát fyrir þessa allra bestu stelpu og við fögnuðum því vel með fjölskyldu og vinum.

Okkar besti staður er Hlemmur. Þangað röltum við fjölskyldan mjög gjarnan og fáum okkur kaffibolla eða bjór. Það eru þessir hversdagslegu hlutir sem eru auðvitað það besta. Ég rölti oft í heimsókn til mömmu og pabba inn í Bjarmaland, nú með Yrsu með mér og það er alltaf indælt.

Það sem er best er að eins mikið og árið hófst í ruglinu þá endaði það í föstum skorðum og þannig líður mér best. Þegar ég fæ nægan nætursvefn og þótt Yrsa sé og verði alltaf í fyrsta sæti þá er meira rými fyrir mann sjálfan eftir því sem hún eldist. Hún er búin að vera í svo góðu skapi öll jólin að ég spring úr ást. Ég vaknaði í morgun við hana að skríkja af gleði og segja hæ. Það er nákvæmega ekkert í heiminum sem jafnast á við það.


Besta við árið voru Yrsa og Krummi. Það er magnað að verða enn ástfangnari af Krumma og líða eins og við séum bara að verða betra og betra teymi. Það er ekkert eins og að fylgjast með þeim, hlusta á þau saman þegar ég fæ að lúra lengur inni í rúmi og hversu glöð Yrsa er þegar hann kemur heim úr vinnunni. Toppurinn á tilverunni.


Lag áratugarsins er þetta. Ekki spurning. (þótt það hafi komið út 2008. Samt lag áratugarins.)


14.8.19

Síðasti dagur í fæðingarorlofi er runninn upp.

Ég hélt auðvitað, eins og allir, að heimilið yrði spikk og span alla daga, ég myndi vera svakalega skapandi, blogga endalaust og klára jafnvel skáldsögu meðan ég sinnti barni. En eins og allir aðrir þá var það ekki þannig. Ég spurði frænku mína einu sinni hvort henni leiddist ekki í fæðingarorlofinu. Hún sagði nei og minnti mig síðan á þetta þegar ég var búin að eignast Yrsu. Mér hefur svo sannarlega ekki leiðst en hef komið fáu öðru í verk en annast stúlkuna mína og drekka rosalega mikið kaffi. Ég vorkenni þeim sem ákveða að skrifa meistararitgerðir eða annað meðfram fæðingarorlofi alveg svakalega. Það er svo nauðsynlegt að geta sest upp í sófa og lokað augunum, skrollað samfélagsmiðla í þennan stutta tíma meðan börnin sofa. Ég held að við Yrsa séum báðar bara nokkuð tilbúnar að taka næsta skref í lífinu, hún að fara til dagmömmu og ég í vinnu. Samt eru tilfinningarnar í dag nokkuð blendnar og næstu dagar eflaust nokkuð skrýtnir þegar heilinn fer af stað og hugsar um eitthvað allt annað en hversu lengi Yrsa hefur sofið og hvað hún hefur borðað mikið. Alltaf samt hversu ótrúlega skemmtileg og falleg hún er.

Hún er best. Veit svo vel hvað hún vill, skríkir af gleði þegar hún snýr fram í kerrunni og vindurinn blæs framan í hana. Alveg sama hvort hún viti hvar mamma og pabbi eru meðan hún horfir á heiminn þjóta hjá.


29.5.19

-->
Yrsa er hálfs árs í dag. Ég vissi ekki að mér myndi finnast það jafn merkilegt og raun ber vitni. Í sex mánuði hefur hún horft á mig með fallegu augunum sínum, drukkið mjólkina mína, sofið í fanginu mínu. Í sex mánuði höfum við verið saman.

Hún er langbest. Það er ekkert betra en að vakna á morgnanna við hana að babbla í rúminu sínu, skoða sængina sína og brosa sínu allra blíðasta. Þessi tilfinningarússíbani er fullkomlega galinn. Það er ótrúlegt að bera ábyrgð á heilli manneskju og fylgjast með henni. Ég hlakka til að sofa heila nótt og til að vera ekki ómissandi, en í raun verð ég það alltaf. Eru foreldrar manns ekki alltaf ómissandi?

Þessir mánuðir hafa bæði liðið hratt og hægt. Það er svolítið eins og hún hafi alltaf verið hérna og mér finnst heil eilífð síðan ég fór upp á fæðingardeild. En samt er ég búin að vera svo stutt í orlofi, svo stutt með henni, svo ótalótalótal margt eftir.

Mér finnst við Krummi bara styrkast sem teymi sem er líka svo ótrúlega góð tilfinning. Algjör aukabónus tilfinning. Við erum fjölskylda og við erum að fara í frí saman og ég er svo fáááránlega spennt. Allt er einhvernveginn aðeins meira spennandi, einhvernveginn örlítið bjartara framundan.

Yrsu finnst mjög gaman í sundi og er rosa dugleg að kafa. Henni finnst líka gaman í garðinum hjá afa og ömmu.

Að einhverjum svo miklu minna væmnum nótum og mjög skrýtnum nótum?

Ég hef ekki þekkt fyrir að vera mikil neyslukona. Það fylgir mjög margt því að eiga barn, allskonar dót sem maður hefur þörf fyrir og ég var svo óviss með það allt áður en hún fæddist. Hvað maður raunverulega þyrfti. Ég las allskonar lista en trúði þeim einhvernveginn aldrei. Ég ákvað að skrifa niður það sem mér finnst maður þurfa. Ekki það að það les enginn bloggið mitt til að fá einhverskonar ráð um það hvað mann vanti. Ég er kannski meira að þessu fyrir mig en nokkurn annan. Hver er ég? Af hverju er ég að skrifa þetta?

Maður þarf:
·      2 samfellur í stærð 50 (bara ef barnið er lítið.
Ef það er svo lítið þá a) vex það mjög hratt b) reddar maður fleiri í þessari stærð)
·      6 langerma samfellur í 56
·      3 buxur í 56
·      2 peysur í 56
·      2 náttföt í 56
·      2 lítil sokkapör
·      1 galla í 56
·      1 húfu

Restina af fötum fær maður svo í sængurgjöf / lánað. Án gríns. Og maður getur fengið þetta allt svo gott sem ónotað t.d. í Barnaloppunni.

·      1 bleyjupakka í stærð 1.
·      1 pakka af blautþurrkum / grisjum sem maður setur vatn á.
·      Taubleyjur til að þurrka allskonar gubb. Við keyptum bara einn svona pakka í Rúmfatalagernum...
·      1 handkæði fyrir hvítvoðunginn og kannski bala. Maður notar hann samt mjögmjög stutt, en er ekki alveg fínt að eiga bala?

·      Ég nota svona 66 poka sem “skiptitösku”. Mest beisikk dæmi í heimi og ég skil ekki alveg til hvers sérhannaðar skiptitöskur eru og hvað fólk geymir í þeim.
·      Vagn sem verður svo að kerru sem barnið getur sofið í.
Mér fannst fólk vera að pæla í hlutum sem ég skildi ekki og skil eiginlega ekki enn. Vagn sem er léttur og þægilegur. Hvað vagnstykkið nákvæmlega er stórt skiptir frekar litlu af því þið vitið, barnið vex og vill horfa í kringum sig alveg örugglega áður en það vex upp úr stykkinu sjálfu á lengdina eða þyngdina. Þannig að, það skipti mig ekki öllu máli.
·      Vagnpoka. Við vorum með gamlan gærupoka í vagninum en þurftum svo að kaupa okkur annan þegar við skiptum yfir í kerruna svo beislið kæmist í gegn. Það var lítið mál að finna slíkan notaðan.
·      Bílstóll. Ég myndi alltaf kaupa mér notaðan ungbarnabílstól ef ég væri að fara að eignast annað barn. Maður notar þetta í max ár og okkar hefur verið notaður svona 20 sinnum max af því við eigum ekki bíl. ...
·      Vöggu – og síðar rúm.
·      Sæng og sængurver.

Mér fannst mjög næs að hafa hreiður.

Við erum með skiptiborð sem mér finnst æði og við skiptum alltaf á Yrsu þar og fötin hennar eru þar við. Sumum finnst þetta algjört möst, öðrum ekki.

Hlutir sem eru gríðarlega miklar líkur á að maður fái (sem er það næst fallegasta á eftir því að eignast barnið sjálft)

·      Heimaprjónaðar húfur (fleiri mættu jafnvel prjóna vettlinga???)
·      Allskonar föt í 62 og 68

Svo er fínt þegar barnið verður aðeins eldra að vera með
·      Leikteppi / eitthvað á gólfið svo það geti horft upp í eitthvað og tjillað á gólfinu.
·      Ömmustól. Aðallega bara til að geta breytt aðeins um umhverfi. Fara frá gólfinu í hreiðrið í ömmustólinn.
·      Einhverskonar matstól.
·      Smekki og matarsett. Ég er nú bara með eitt sem ég þvæ á milli...

Við höfum ekki keypt eitt leikfang, en hún á samt allskonar leikföng og nagdót og bangsa.

This is it. Eða.
Kannski brjóstakrem fyrir fyrstu vikurnar (svona lítil túba er svo miklu meira en nóg) og pumpu.

Jæja. Brynhildur babyblogger ætlar að fara að sofa.